ForsíðaStarfsferillMeðferð & RáðgjöfGreinarHafa sambandTenglar
Bookmark


Skömm

Það er ekki fyrr en fyrir rúmum 20 árum sem meðferðaraðilar fóru að fjalla um skömm og gera sér grein fyrir áhrifamætti hennar og afleiðingum fyrir líðan okkar. Í rauninni er skömm eðlileg mannleg tilfinning. Hún er nauðsynleg ef við viljum taka þátt í mannlegu samfélagi á ábyrgan hátt. Án heilbrigðrar skammar myndum við ekki setja okkur mörk í mannlegu atferli og myndum fljótlega lenda í vandræðum við laganna verði og annað fólk. Skömmin heldur aftur af okkur að gera það sem okkur langar til að gera og myndi hafa slæmar afleiðingar fyrir okkur og samfélagið. Það er einungis þegar skömmin verður fyrirferðarmikil í lífi okkar sem hún eitrar út frá sér og eyðileggingarmáttur hennar kemur í ljós.

Skömmin hefur verið kölluð Öskubuska tilfinninganna þar sem hún leynist oft í bakgrunni meðvitundarinnar, án þess að við tökum eftir henni, á svipaðan hátt og veggfóðrið á veggjunum hjá okkur. Það er á veggnum, en við erum hætt að taka eftir því. Önnur orð sem gjarnan hafa verið notuð til að túlka skömm eru feimni og það að fara hjá sér, en einnig gefur óöryggi oft til kynna að viðkomandi er að kljást við skömm innra með sér.

Skömm hefur líka verið ruglað saman við sektarkennd, en þessar tilfinningar fylgjast oft að og stundum getur verið erfitt að átta sig á hvað er hvað. Almennt séð fáum við sektarkennd ef við gerum eitthvað rangt, en skömminn snýst meira um það að það sé eitthvað að okkur sem manneskju. Þannig séð snýr sektarkenndin að gjörðum okkar, en skömmin að okkar eigin sjálfi. Nú er það þó svo að þeir sem hafa mikla skömm geta átt það til þegar þeir finna fyrir sektarkennd að finna líka til skammar, þó það fari einnig eftir aðstæðum.

Það má rekja margt í mannlegu atferli til eitraðrar skammar eins og til að mynda fíknir í sínum mörgu myndum. Margir þekktir fíknarfræðingar í Bandaríkjunum vilja meina að skömmin sé eldsneyti fíknarinnar og miklu áhrifameiri þáttur heldur en erfðir og gen. Erfiðleikar með nánd í samböndum stafa oft af skömm og engin tilfinning hefur eins mikil áhrif á okkar sjálfsvirðingu eins og skömmin. Það má ganga að því sem vísu að sá sem er að fást við brotna sjálfvirðingu er innra með sér að kljást við skömm meðvitað eða ómeðvitað.

Þeir sem mest hafa fjallað um skömm eru nokkuð sammála um að djúpstæða skömm megi rekja til lítillar tengslamyndunar í fjölskyldunni. Sjálf okkar, sem er í raun upplifun okkar af sjálfum okkur, myndast og mótast mest á fyrstu árum okkar - frá því að við fæðumst og til þriggja, fjögurra ára aldurs. Þar með er ekki verið að segja að árin þar á eftir skipti ekki máli, heldur er grunnurinn lagður á þessum fyrstu árum.  

Upplifun okkar af okkur sjálfum helgast af því hvort og hvernig þörfum okkar er fullnægt og þar er þörfin fyrir ást og nánd sú veigamesta í bernsku. Rannsóknir í taugalífeðlisfræði hafa sýnt að þegar börn fá þessum þörfum ekki fullnægt þá örvast ekki ákveðin svæði heilans sem lúta að sjálfsöryggi og sjálfsást. Þegar þörfum barns fyrir ást og nánd er ekki fullnægt leitar barnið inn á við og upplifir skömm sem það reynir svo að fela. Barnið kemst að þeirri niðurstöðu að það hljóti eitthvað að vera að því, ef þörf þess fyrir tengsl er ekki fullnægt. Að það sé eitthvað að hjá foreldrunum hvarflar yfirleitt ekki að barninu, því það sér foreldra sína sem fullkomna einstaklinga á þessum fyrstu árum sínum. Að sjá þau sem ófullkomin væri hreinlega of áhættusamt fyrir barnið, þar sem það setur allt sitt traust á foreldra sína.

Að verða fyrir sterkri höfnun frá foreldi seinna meir á barns- og unglingsárum vekur líka þessa sterku tilfinningu sem barnið/unglingurinn reynir síðan að fela eftir bestu getu. Viðbrögð eins og ofsareiði/heift eða fíknir samfara lögbrotum verða oft leiðir til að reyna að slökkva á þessari erfiðu tilfinningu.

Einelti í skóla og/eða að vera ekki eftirsóknarverð/ur getur líka kveikt á skömminni, þar sem skilaboðin sem viðkomandi fær frá þjóðfélaginu og/eða skólasystkinum eru þau að hann/hún sé ekki í lagi sem manneskja og eigi ekki rétt á ást og virðingu.

Meðferð á skömm fer yfirleitt þannig fram að meðferðaraðilinn hjálpar viðkomandi að koma auga á þær hugsanir sem vekja upp skömm, jafnframt sem áhersla er lögð á að vinna úr tilfinningum og skapa raunsæja mynd af sjálfum sér. Slík meðferð getur tekið mislangan tíma eða allt frá nokkrum mánuðum til nokkurra ára og fer það þá oftast eftir því hversu djúpstæð skömmin er.

Páll Einarsson MSc
Psychotherapist