Höfnun
Það er fátt sem hefur jafn mikill áhrif á tilfinningalíf okkar og sjálfsmynd og höfnun, ef frá eru talin veikindi og dauði ástvina okkar. Nú er það svo að fólk getur upplifað höfnun í hinum ýmsu aðstæðum. Það að vera sagt upp í ástarsambandi er kannski sú algengasta ásamt því að vera sagt upp vinnunni. Margur hefur líka reynslu af því að vera ekki valinn í liðið sitt og sitja alltaf á bekknum eða vera sá sem aldrei fékk athygli frá hinu kyninu. Einelti í skóla eða á vinnustað er gott dæmið um höfnun sem getur haft djúpstæð áhrif á sjálfstraust einstaklinga um ófyrirsjáanlega framtíð og gert viðkomandi mjög viðkvæman fyrir höfnun seinna meir.
Höfnun fylgir önnur tilfinning sem oft reynist erfitt að hrista af sér, en það er skömm. Skömm er sú tilfinning að það sé eitthvað að okkur sem manneskju. Tilfinningin af því að við séum ekki eins og aðrir, að við séum ekki eftirsókarverð. Það er athyglisvert að lítil sjálfsvirðing stafar oft af skömm sem við erum svo vön að finna fyrir að við erum hætt að taka eftir henni, en tölum þess í stað um að við séum feimin eða óörugg. Þegar við verðum fyrir reglubundinni höfnun er hætt við að skömmin setjist að og sjálfsvirðing okkar beri skaða af.
Ein af ástæðunum fyrir því að við erum misjafnlega viðkvæm fyrir höfnun er hvernig sjálfstrausti okkar er háttað. Að alast upp í fjölskyldu þar sem við erum elskuð og tilfinngaþörfum okkar er fullnægt skapar grunn fyrir sterku sjálfi. Einstaklingur sem fær þannig uppeldi á mun auðveldara með að hrista höfnun af sér seinna meir á lífsleiðinni. Ef það var lítið um náin samskipti í fjölskyldunni í æsku er hætt við að viðkomandi sé viðkvæmur fyrir höfnun, upplifi hana sterkt og eigi erfitt með að vinna úr henni.
Þegar höfnun í ástarsambandi á sér stað getur ferlið staðið yfir í langan tíma og í sumum tilvikum nokkur ár. Það sem gerist oft í slíkum tilvikum er að gömul sár, jafnvel úr barnæsku, ýfast upp og gamlar neikvæðar hugmyndir um eigið sjálf taka yfir. Þá er mikið undir því komið að rétt sé á málum haldið. Hættan er sú ef viðkomandi er í eðli sínu ekki mikið fyrir að tala um eigin tilfinningar að hann loki sig af og hleypi ekki öðrum að sér. Það gæti síðan meir orðið erfitt að leyfa sér að elska aftur vegna ótta við að verða særður og hafnað.
Höfnunarferlið er oft mjög líkamlegt, sem lýsir sér í því að viðkomandi á erfitt með að borða eða halda niðri mat. Tilfinningar eins og kvíði, þunglyndi, ótti og skömm eru algengar og í vissum tilfellum löngun til að taka eigið líf. Skammtímaminnið verður oft brigðult þar sem spenna og angist fylgir oft höfnunini.
Ekki er óalgent að fólk taki til eigin ráða til að kljást við þessar sterku tilfinningar. Dæmi eru um að fólk helli sér út í vinnu eða noti áfengi og lyf til að deyfa vanlíðanina. Einnig er þekkt að fólk noti mat til að hafa áhrif á líðan sína og borði þá annað hvort of mikið eða svelti sig. Margir reyna líka að koma sér aftur í annað samband sem fyrst til að sanna fyrir sjálfum sér, og jafnvel öðrum, að þeir séu þess verðir að vera elskaðir.
Slíkt athæfi er ekkert annað en örvæntingafull tilraun til að stjórna líðan sinni og komast yfir sársaukan. Jafnvel þó sumar af þessum aðferðum virki til að gleyma höfnuninni þá ber að hafa í huga að lítið lærist á því að gleyma og að mörgu leyti er þetta góður tími til að sækja sér aðstoð við að losna við gamlar neikvæðar hugmyndir um sjálfan sig og sættast við tilfinningar sínar.
Áföll eins erfið og þau eru, innihalda oft tækifæri til vaxtar og þroska, jafnvel þó að oft sé erfitt að koma auga á það í miðjum erfiðleikunum. Að horfast í augu við sjálfan sig með hjálp góðs fagaðila getur hjálpað til við að nýta sér þetta tækifæri. Gott er að gleyma ekki að höfnunarferlið er tímabil sem tekur enda og með nýjum tímum koma ný tækifæri til vinnu og ásta.
Páll Einarsson MSc Sálmeðferðarfræðingur
|
|
|