Fjölskyldukerfi
Eitt af því sem við þurfum öll á að halda á lífsleiðinni er góð fjölskylda. Fjölskylda þar sem við getum tjáð tilfinningar okkar frjálslega og þar sem við finnum að við erum elskuð. Og okkur nægir ekki að heyra það sagt, heldur þurfum við að finna hvað við erum mikilvæg og fá líkamlegum, andlegum og tilfinningalegum þörfum okkar fullnægt. Fjölskyldan ræður miklu um það hvernig sjálfsmynd við öðlumst og hvernig okkur líður tilfinningalega. Sú tengslamyndun sem á sér stað í fjölskyldunni ræður miklu um líðan okkar, sjálfstraust og kjölfestu í lífinu. Þegar tveir einstaklingar stofna fjölskyldu þá er hætt við að þeir taki báðir með sér þær reglur sem giltu í þeirra eigin fjölskyldu. Ef það var til dæmis aldrei rætt um tilfinningar í fjölskyldu annars þeirra, en mikið í hinni, þá er hætt við að það verði fljótt ágreiningur um hvor reglan skuli vera við lýði.
Fjölskyldur skapa sér sínar reglur meðvitað og/eða ómeðvitað. Í raun er hægt að segja að um tvær gerðir sé að ræða. Annars vegar opna fjölskyldu og hins vegar lokaða. Engin fjölskylda er þó annað hvort alveg opin eða alveg lokuð. Oftast nær er um að ræða sambland af hvoru tveggja. Því er þó ekki þannig varið að reglur séu settar og samþykktar á fjölskyldufundum, heldur verða þær oftast til með jákvæðum eða neikvæðum viðbrögðum. Til að geta flokkast sem „heilbrigð“ fjölskylda þarf hún að byggja á opnum samskiptum, ekki lokuðum. Við skulum líta nánar á þær mismunandi reglur sem um er að ræða.
Opin fjölskylda Lokuð fjölskylda
Opin samskipti Lokuð samskipti Reiði tjáð án ásakana Reiði bæld / ofbeldi Leitað að lausnum Ásakanir / sökudólgs leitað Samheldni í fjölskyldunni Sundrung, lítil tjáskipti Heiðarleiki Leyndarmál Lífsgleði Þunglyndi / depurð Heilbrigð útrás Fíknir Sjálfsvirðing Sjálfsásakanir Sjálfsprottnir einstaklingar Fjölskylduhlutverk
Samskipti
Í grundvallaratriðum er um að ræða bein samskipti eða óbein. Í beinum samskiptum talar fólk saman um það sem máli skiptir og málin eru rædd til hlítar. Skiptir þá ekki máli hvort þau séu tilfinningalegs eðlis eða ekki. Opna fjölskyldan býður upp á djúpstæð og heiðarleg tjáskipti, en lokaða fjölskyldan þolir ekki að rætt sé út um málin. Í lokuðu fjölskyldunni er tilfinningum stungið undir stól og þær ekki viðraðar. Hér kemur til sá tilfinningalegi þroski sem fjölskyldan býr yfir hverju sinni.
Reiði
Það eru fáar tilfinningar eins vandmeðfarnar og reiði. Reiði er ekki neikvæð tilfinning, þó hún hafi slæmt orð á sér. Vandinn er hvernig farið er með hana og hvernig hún er tjáð. Í opnu fjölskyldunni er reiðin tjáð án ásakana og jafnframt leitað leiða til að komast að því hvað hefur sært viðkomandi og reitt til reiði. Þá er reiðin sjaldan djúpstæð, þar sem hún hefur ekki hlaðist upp, því tilfinningar eru hvort sem er tjáðar. Í lokuðu fjölskyldunni hins vegar er reiðin yfirleitt bæld eða þá að hún er tjáð með offorsi og ásökunum þannig að það skapar fleiri vandamál. Ekki er óalgengt að líkamlegt ofbeldi fylgi með, þar sem uppsöfnuð reiði verður oft stjórnlaus þegar hún er loksins tjáð. Slík reiði er því ekki endilega bundin einhverju ákveðnu atviki, heldur er hún uppsöfnuð og ástæðurnar geta verið margvíslegar.
Lausnir eða ásakanir
Ef upp koma vandamál eða óhöpp í opnu fjölskyldunni er hefðin sú að leita lausna og læra af atvikinu. Í lokuðu fjölskyldunni gerist það aftur á móti að leitað er að sökudólgi og hann síðan skammaður. Skömm og sektarkennd eru þær tilfinningar sem hér er leikið á og hætt við að viðkomandi fari í vörn og loki sig um síðir af með sín vandamál. Yfirleitt þarf ekki að ráðast á fólk til að það læri af reynslunni, en í lokuðu fjölskyldunni er engum treyst og í raun salti stráð í sárið.
Samheldni eða sundrung
Samheldni innan fjölskyldu kemur til af því að fólki líður vel hvert með öðru. Málin liggja ljós fyrir og það ríkir traust og ást sem er tjáð í athöfnum. Í lokuðu fjölskyldunni er annað uppá teningnum, þar sem ekki er opin samskipti að ræða. Afleiðingin er gjarnan sú að svo margt er ósagt innan fjölskyldunnar að það er erfitt að vera saman og láta sér líða vel. Fólk sækist eftir tilfinningalegri næringu með öðrum hætti en í návist hvert annars og ákveðin sundrung skapast innan fjölskyldunnar.
Heiðarleiki eða leyndarmál
Það gilda engar reglur um það hvað við segjum hvert öðru innan fjölskyldunnar. Það fer eftir því hversu mikið traust er til staðar og hversu náin við erum. Leyndarmál geta verið erfið og sérstaklega þegar þau komast upp. Hætt er við að öðrum í fjölskyldunni finnist þeir hafa verið sviknir eða þeim ekki treyst. Leyndarmál eru af ýmsum toga og eiga misjafnlega mikinn tilverurétt. Framhjáhöld eru dæmi um leyndarmál sem skaða alla innan fjölskyldunnar og gamlir fortíðardraugar hafa þá tilhneigingu líka. Það sama má segja um neyslu áfengis og eiturlyfja. Í fjölskyldum sem iðka opin samskipti eru miklu meiri líkur á að leyndarmálin séu tekin til umræðu. Máltækið „það sem aðrir vita ekki af meiðir þá ekki“ á alls ekki við hér. Það sem við geymum sem leyndarmál birtist alltaf í atferli okkar meðvitað eða ómeðvitað. Rétt er þó að fara varlega í að ljúka upp leyndarmáli og gott að leita aðstoðar fagaðila áður en það er gert. Lífsgleði eða depurð
Eitt af einkennum einstaklinga sem alast upp í opinni fjölskyldu er lífsgleði. Þegar ást og heiðarleiki eru til staðar skapar það öryggi og ákveðna kjölfestu í lífinu sem síðan birtist í lífsgleði og sjálfsvirðingu hjá fólki. Depurð og/eða þunglyndi eru algengir fylgifiskar í þeim fjölskyldum þar sem lítil samskipti eiga sér stað. Hér má þó ekki rugla saman einstaklingi sem er lífsglaður og einstaklingi sem er fastur í fjölskylduhlutverki sínu sem trúðurinn. Þeir geta báðir birst sem lífsglaðir einstaklingar, en þeirra innra líf er þó allt annað. Annar hlær til að fela sorgina, en hjá hinum er gleðin sönn og bein tjáning innri líðanar.
Heilbrigð útrás eða fíknir
Einstaklingur sem býr við opin tjáskipti þarf ekki að bæla tilfinningar sínar. Innri togstreita hans er þar af leiðandi ekki mikil og skapar hvorki vanlíðan né tómleika. Fíknir ná ekki tökum á einstaklingum sem líður vel í sjálfum sér og hafa góða kjölfestu í lífinu. Fólk sem býr við léleg tjáskipti í fjölskyldu sinni situr á tilfinningum sínum og efast oft um eigið ágæti. Það á oft í vandræðum með að láta sér líða vel og reynir að leysa mál sín með fíknum. Þar getur þó fleira spilað inn í eins og til að mynda erfðir. Rót fíknarinnar liggur samt alltaf í vanhæfni okkar til að láta okkur líða vel, þó vissulega séum við misnæm á vímugjafana.
Sjálfsvirðing eða sjálfsásakanir
Sjálfsvirðing sprettur upp af þeirri tilfinningu að maður sé verður ástar, hvorki meiri né minni en aðrir, og skammast sín ekki fyrir sjálfan sig. Sjálfsgagnrýni slíks manns er heilbrigð, en ekki smámunasöm og niðurdrepandi. Einstaklingur úr lokuðu fjölskyldunni býr oft við brenglað sjálfsmat og verður yfirmáta gagnrýninn á sjálfan sig. Þar sem ekki verður viðkomið eðlilegum, opnum tjáskiptum innan fjölskyldunnar verður hver og einn að reyna að finna út úr sínum tilfinningum sjálfur. Afleiðingin verður oft sú að viðkomandi ályktar að það hljóti eitthvað að vera að honum sjálfum. Það verður síðan grunnurinn að lélegu sjálfsmati og óverðskuldaðri sjálfsgagnrýni sem getur leitt til þunglyndis og kvíða.
Sjálfsprottnir einstaklingar eða fjölskylduhlutverk
Í opnu fjölskyldunni eru miklar líkur á að fólk eigi auðvelt með að vera það sjálft og þurfi ekki að fela sig á bak við grímur. Því líður nokkuð vel með sjálfu sér og efast ekki um eigið ágæti. Í lokuðu fjölskyldunni, þar sem eðlilegt flæði tilfinninga og upplýsinga er ekki til staðar er hætt við að ákveðin hlutverkaleikur fari af stað. Þá er eins og hver og einn reyni að finna leið til að lifa með þeim ótjáðu tilfinningum sem hann er að kljást við djúpt innra með sér. Hér eru dæmi um hin ýmsu hlutverk sem oft birtast í lokuðum fjölskyldum:
Svarti sauðurinn er yfirleitt sá eða sú sem tekur að sér að tjá reiðina. Hann lendir oft í kasti við lögin og er sá sem lætur allt flakka innan fjölskyldunnar. Innra með sér er hann sorgmæddur, en velur að dvelja í reiðinni, því í sorginni finnur hann fyrir skömm sem hann á erfitt með að kljást við.
Hetjan er sú eða sá sem nýtur sjálfsvirðingar fyrir að standa sig vel og vinna nýja sigra. Það er í sjálfu sér gott og blessað, en hér er þó ekki um það að ræða að hetjan hafi val, þar sem hún er háð því að vera best. Ef hún er ekki að vinna einhverja sigra í vinnunni eða náminu er hætt við að hún finni fyrir lágu sjálfsmati sem lúrir undir yfirborðinu.
Trúðurinn tekur að sér að losa um spennuna og oft hið rafmagnaða ástand sem myndast þegar fólkið í fjölskyldunni situr á tilfinningum sínum. Hann er yfirleitt kátur með hnyttin svör á takteinum. Innra með sér burðast hann þó með sorg sem hann finnur ekki farveg fyrir.
Týndi einstaklingurinn er sá sem einatt er frekar hljóður. Hann tekst á við tilfingavandamálin með því að hverfa inn í þögnina. Erfitt er að sjá á andliti hans hvað er að gerast innra með honum, en segja má að hann hafi sérhæft sig í að láta ekki á neinu bera. Ekki er óalgengt að týndi einstaklingurinn springi nokkrum sinnum á ári og þá forða menn sér yfirleitt í burtu, því reiðin sem þá kemur í ljós verður oft stjórnlaus.
Lokaorð
Fyrir þá sem hafa alist upp í mjög lokaðri fjölskyldu er gott að muna að það sem einu sinni hefur verið lært er hægt að „aflæra“. Að setjast niður með góðum fagaðila getur haft úrslitaáhrif á það að opna fyrir tjáskipti og finna nýjar leiðir við tjáningu tilfinninga.
Að lokum vil ég líka geta þess að góðir vinir geta verið gulls ígildi þegar um lokaða fjölskyldu er að ræða, þar sem þeir opna fyrir nýjar leiðir í samskiptum og tjáningu. Í því þjóðfélagi sem við búum við í dag hefur samferðafólk okkar í skóla og á unglingsárum mikil áhrif á líðan okkar, þó grunnurinn sé alltaf lagður innan fjölskyldunnar.
Páll Einarsson Psychotherapist MSc |