Sjálfskoðun
Það er ekki óalgengt að þeir sem koma í samtalsmeðferð eigi sögu um að hafa stundað sjálfsrannsókn sem lét þeim líða verr en ella. Margir stunda sjálfskoðun í dag, en hún er víða kennd og lofuð af hinum og þessum trúarhópum, 12-sporakerfum sem og meðferðarfræðingum. Hver þessara hópa hefur svo ákveðnar forsendur fyrir sjálfskoðuninni þar sem mælt er með að fylgjast beri með ákveðnum þáttum í sálarlífinu, svo viðkomandi verði annað hvort betri manneskja eða ná betri tökum á lífi sínu. Allt er þetta gott og blessað og hugmyndin eflaust góð að baki sjálfskoðuninni en því miður verður árangurinn oft ekki mjög góður. Oft gerist það að sjálfskoðun leiðir hreinlega til þunglyndis og kvíða þar sem innbyggt er í sum af þessum sjálfskoðunarkerfum að við eigum að taka eftir „brestum okkar“, þar sem við séum í eðli okkar ekki „heilbrigð“ og þar af leiðandi þurfum við að stunda fyrirbyggjandi sjálfsrannsókn. Margir trúa því að þeir séu í eðli sínu „gallaðir“ eða „syndugir“ og sjálfsrannsóknin sé til þess gerð að varna því að brestirnir fái of mikið pláss. Þetta er algeng nálgun hjá trúarhópum og 12 spora hópum. En hér er hætta a ferð. Þeir sem leita sér aðstoðar vegna fíkna eða vanlíðunar eru oft að kljást við mikla sjálfsgagnrýni sem er hreinlega oft ástæðan fyrir því að þeim líður illa sem síðan ýtir undir að leitað er að stundarfrið í fíknum. Sú sjálfsrannsókn sem hefur það að leiðarljósi að fylgjast með „göllum““ eða „brestum“ ýtir oft undir sjálfsgagnrýni hjá þeim sem eru vanir því að vera gagnrýnir á sjálfan sig. Hætt er við að viðkomandi sé hér kominn í mjög erfiða sjálfheldu þar sem sjálfskoðunin er ekki að leiða til neinar lausnar annarrar en að staðfesta hvað hann sé mikill gallagripur. Endalausir brestir og syndir sem þarf að fylgjast með og jafnvel biðjast afsökunar á. Nú hef ég ekki á móti því að fólk biðjist afsökunar á framferði sínu ef það særir eða brýtur á öðrum. Mér er aftur á móti hugleikið hvernig fólk sem er mjög sjálfsgagnrýnið geti nýtt sér sjálfsrannsókn til að líða betur og til að öðlast meira sjálfstraust. Sú sjálfsrannsókn sem ég hef séð að getur hjálpað fólki til að líða betur er byggð á 3 þáttum sem allir eru jafn mikilvægir. Sé fólk tilbúið að tileinka sér þessa þætti þá er næsta víst að í gang fari ferli sem getur haft mikil og góð áhrif á eiginn líðan. Þessir þrír þættir eru: Forvitni, samþykki og hlýja. Skoðum þessa 3 þætti betur en vert er að hafa í huga að þessir þættir renna inn í hvern annan þegar við iðkum þessa tegund af sjálfsrannsókn. Forvitni: Við reynum að mæta öllum okkar upplifunum með forvitni án þess að setja einhvern neikvæðan eða jákvæðan merkimiða á upplifunina. Margir eru vanir því að um leið og þeir upplifa eitthvað sem þeim finnst ekki í lagi þá kemur dómur og möguleikin til að forvitnast um það sem gerðist verður að engu. Það sem verður líka að engu er tækifæri okkar til að skilja okkur betur og þar af leiðandi þroskast. Tökum sem dæmi: „Jón er staddur á árshátíð fyrirtækis síns og sér nokkra unga starfsmenn sem hafa meiri menntun en hann og sem hafa verið að vinna sig hratt upp í fyrirtækinu. Hann finnur fyrir gremju, reiði og öfund; öllum þessum „neikvæðu“ tilfinningum sem hann veit að eru ekki góðar fyrir sig. Hann verður ósáttur við sjálfan sig og í kjölfarið finnur Jón fyrir depurð og leiða. Jón á sögu um að hafa drukkið ótæpilega áður og voru þessar tilfinningar þá mjög ríkjandi. Hann er virkur í dag í 12 spora samtökum sem hjálpa honum að halda sér frá áfengi en honum hefur gegnið illa að eiga við þessar tilfinningar“ Jón hefur notast við þá tegund af sjálfskoðun sem byggir á því að gera reikniskil á hverju kvöldi og að fylgjast með brestum sínum. Í kjölfarið hefur hann haldið áfram að finnast hann ekki vera nógu góður, í raun „gallaður“ og ekki ná árangri. Þegar Jón fór að nota forvitni gagnvart upplifunum sínum þá fór hann að taka betur eftir því hvað hann dæmdi sig hart fyrir að hafa þessar erfiðu tilfinningar. Í raun þá voru það ekki tilfinningar hans sem létu hann í sjálfu sér líða illa, heldur miklu frekar hvernig hann talaði við sjálfan sig um tilfinningar sínar sem lét honum líða illa. Í kjölfarið fór Jón að verða meira forvitinn hvaðan þessar erfiðu tilfinningar komu og hver rótin í þeim væri. Hægt og rólega fór að rifjast upp fyrir Jóni hvað hann upplifði sig alltaf útundan í fjölskyldunni þar sem hann upplifði bræður sínir hafa fengið meiri athygli. Ein forsenda tilfinningagreindar er að skilja og samþykkja tilfinningar sínar. Þar spilar forvitni stórt hlutverk þar sem forvitnin leggur grunnin að góðri tilfinningagreind þannig að hún geti þroskast og dafnað. Samþykki: Við reynum að mæta öllum okkar upplifunum með samþykki. Ef við leyfum okkur að dvelja við upplifanir okkar og skilja þær þá munum við komast að því að allar eru þær eðlilegar út frá því sem við höfum upplifað áður og gengið í gegnum. Þegar aðalnálgunin á upplifanir okkar hefur verið gagnrýni þá getur það verið meiri háttar breyting að fara að samþykkja upplifanir okkar. Það þýðir samt ekki að við ætlum að samþykkja það að líða alltaf illa eða vera alltaf kvíðin eða þunglynd. Langt í frá, en við getum byrjað á því að hætta að gagnrýna okkur fyrir það hvernig okkur líður. En og aftur er það ekki tilfinningar okkar sem láta okkur líða illa heldur hvernig við mætum þeim. Fólk sem býr að því að vera með gott sjálfstraust samþykkir upplifanir sínar. Það er ekki þannig að fólk með gott sjálfstraust sé fullkomið heldur er það meira það að það mætir sér með forvitni, samþykki og hlýju. Hlýja: Að ná því að mæta sér með hlýju er það sem mörgum reynist hvað erfiðast og kemur það oftast seinast í þessu ferli. Margir eru vanir að dæmi sig og tilfinningar sínar á þann hátt að það er orðið sjálvirkt ferli. Allt sem viðkomandi upplifir er sett í hólf sem er annað hvort samþykkt eða ekki samþykkt. Allt sem viðkomandi ekki skilur er dæmt óeðlilegt, ekki í lagi eða óboðlegt. Það eru oft löng gangan í áttina að sjálfsamþykki en sjálfshlýja er klárlega sú tilfinning sem kemur okkur á endanum þangað. Páll Einarsson MSc Sálmeðferðarfræðingur |