Þunglyndi
Þunglyndi hefur fengið mikla umræðu á síðust árum og er ekki óalgengt að margir þekki einhvern sem þjáist af þunglyndi og eða taki þunglyndislyf. Til er að fólk fari í gegnum tímabil þar sem það finnur fyrir þunglyndi og depurð en síðan er eins og það lagist af sjálfu sér með tímanum. Svo er aftur á móti ekki oft farið með þunglyndi sem hrjáir fólk, en það er oft til staðar frá ári til árs.
Nokkrar kenningar eru í gangi um hvað orsakar þunglyndi en ávalt hefur staðið styr um hvort leita ætti að orsökunum í heilastarfseminni og erfðum annars vegar eða í félagslegum áhrifum og sálarlífinu hins vegar. Þunglyndi hefur fengið á sig sjúkdóms stimpil þar sem þunglyndi hefur verið meðhöndlað af læknum og á spítölum. Þar er þunglyndi oftast séð sem skortur á boðefnum í heila sem veldur því að viðkomandi á erfitt með að líða vel. Þessu hefur verið mætt með því að gefa þunglyndislyf sem koma þá í staðin fyrir þessi ákveðnu boðefni í heilanum en þau hafa þau áhrif í för með sér að betri líðan skapast og stundum léttir þunglyndinu. Ekki er það þó algilt þar sem sumir einstaklingar upplifa ekki neinn létti við töku þeirra og eða finna bara fyrir aukaverkunum lyfjanna sem geta verið mismunandi eftir tegundum.
Þeir fagaðilar (Þerapistar, Sálfræðingar) sem vinna með fólk út frá sálrænum og félagslegum þáttum líta oftast ekki á þunglyndi sem lífræðilegan sjúkdóm þó vissulega geti ástand skjólstæðingsins verið orðið mjög “sjúklegt” og afleiðingar þunglyndisins miklar í hans lífi. Þegar unnið er með þunglyndi sem og aðra erfiðleika ( kvíða, vonleysi, ótta, skapköst, fælni) út frá sálrænum þáttum þá er horft til þess hvað það er í hans sálarlífi og aðstæðum sem skapar þessar erfiðu og þrálátu tilfinningar. Oftast kemur þá í ljós að “sjálf” viðkomandi á undir högg að sækja þar sem viðhorfið til sjálfs síns einkennist af dómhörku sem gerir það að verkum að viðkomandi upplifir ávalt að hann sé ekki nógu góð/ur. Hægt er að segja að dómharður “innri partur” sé við stjórnvölin sem gerir þannig kröfur að erfiðlega getur reynst fyrir viðkomandi að standa undir þeim.
Í minni vinnu með fólk sem þjáist af þunglyndi hef ég undantekningarlaust fundið þennan dómharða part sem ræðst meðvitað og eða ómeðvitað á “sjálf” viðkomandi sem gerir það að verkum að viðkomandi sekkur niður í tilfinningar af vonleysi, depurð, kvíða og þunglyndi. Tilurð þessa dómharða parts er oft hægt að rekja til þess að viðkomandi fékk skilaboð sem barn um að hún/hann væri ekki nógu góð/ur eða alist upp á heimili þar sem annað foreldri var mjög dómhart. Sem börn þá tökum við þessi skilaboð um borð án þess að taka þau til skoðunar og verða þau partur af okkar sjálfsmynd.
Ekki er heldur óalgengt að baki liggi áföll sem viðkomandi hefur ekki náð að vinna úr og valdi jafnvel ómeðvitað vanlíðan sem greiðir veg þunglyndisins. Þetta er þó ekki algilt en þær raddir heyrast þó oftar sem vilja meina að margs konar áföll veiki undirstöður sjálfsins sem gerir það að verkum að sjálfsmyndin hljóti skaða af og hin dómharði partur í sálarlífinu fái í kjölfarið meira pláss. Þunglyndi getur líka verið tímabundið, það er, frá nokkra vikna til nokkura mánuða en þá má oft finna orsökina ef vel er rýnt í aðstæður viðkomandi þegar þunglyndið byrjaði.
Batalíkur þeirra sem eru að fást við þunglyndi eru góðar ef þeir rata á góðan fagman sem kann virkilega að vinna með þunglyndi. Í gangi eru nokkrar stefnur innan sálmeðferðarinnar hvernig best sé að vinna með þunglyndi en allar miðast þær þó við að skoða það sem er að gerast í sálarlífinu og hjálpa viðkomandi að vinna úr þunglyndinu.
Páll Einarsson MSc Sálmeðferðarfræðingur
|
|
|