ForsíðaStarfsferillMeðferð & RáðgjöfGreinarHafa sambandTenglar
Bookmark


Spilafíkn

Spilafíkn er erfið fíkn að kljást við, bæði þegar kemur að því að losna úr viðjum hennar og/eða skilja eðli hennar. Það sést kannski best á því að fólk úr öllum stéttum þjóðfélagsins hefur orðið henni að bráð með einum eða öðrum hætti án þess oft að átta sig á því að um fíknmyndandi samband er að ræða sem hefur alvarlegar afleiðingar. Það er ekki fyrr en algjör örvænting grípur um sig sem margir spilafíklar viðurkenna fyrir sjálfum sér og öðrum að um vandamál sé að ræða og láta undan þrýstingi skyldmenna að leita sér aðstoðar.

Spilafíkn flokkast undir svokallaða atferlisfíkn (net-, kynlífs-, trúar-, eyðslu- og sjónvarpsfíkn eru dæmi um aðrar atferlisfíknir), þar sem ekki er um beina neyslu efnis að ræða (áfengis-, matar-, reykinga- og lyfjafíkn eru dæmi um inntökufíknir), heldur framkallar spilafíkillinn breytt ástand innra með sér með því að iðka ákveðnar athafnir,  þ.e. hann kemst í ákveðna leiðslu sem síðan heltekur hann.

Leiðsla er ástand sem við upplifum öll á vissum stundum lífs okkar, eins og þegar við verðum ástfangin, hlustum á góða tónlist og/eða full tilhlökkunar leyfum okkur að dreyma um sumarfríið sem er á næsta leyti. Fyrir fíkilinn er þessi leiðsla þó mun sterkari og er bundin við spilakassana (eða sambærilegt athæfi) og þær sterku tilfinningar sem spilaferlið kallar fram. Í leiðslunni rofnar tilfinning einstaklingsins fyrir raunveruleikanum og hann flakkar á milli vímunnar og veruleikans yfirleitt án þess að aðrir veiti því athygli. Leiðslan hjálpar fíklinum að losna undan sársauka, skömm og sektarkennd. Með því að spila þjálfar spilafíkillinn sig í því að breiða yfir sárar tilfinningar og afneita þeim.

Smám saman fer spilafíkillinn að flýja meir og meir á náðir leiðslunnar í stað þess að takast á við erfiðar tilfinningar eins og einmanaleika, almenna vanlíðan og áföll, en stór hluti af bataferli fíkilsins felst einmitt í því að læra að takast á við tilfinningar sínar og að líða vel með sjálfum sér.

Spilafíknin byrjar þegar hin tilvonandi spilafíkill fer í fyrsta skiptið í spilakassa eða skefur saklausan skafmiða, þar sem ákveðnir möguleikar eru á að vinna sér inn peninga á skjótfenginn hátt. Það sem gerist í þessu ferli er að viðkomandi finnur til spennu og eftirvæntingar sem síðan tekur yfirhöndina og heldur manni föngnum við spilaiðkunina.  Eftir þessa fyrstu reynslu, sem oft er mjög sterk, verður til fíknmyndandi sambandi við spilaferlið, þar sem spilafíkillinn getur nokkurn veginn gengið að því sem vísu að ástand hans breytist við að spila og þar með geti hann stjórnað líðan sinni að vissu marki.  

Það sem gerir þetta ferli svo erfitt er sú tilfinning að stóri vinningurinn sé skammt undan og ef bara sé spilað aðeins meira þá muni hann kannski nást og þar með muni áhyggjur, kvíði og skömm, sem spilamennskan hefur skapað, hverfa eins og dögg fyrir sólu. Sú skömm og sektarkennd sem hlýst af spilafíkninni verður jafnframt eldsneyti fíknarinnar, þar sem spilafíkillinn nær ekki að slökkva á þessum sterku tilfinningum nema með því að fara í leiðslu fyrir framan spilakassann.

Nú mætti halda að við það að vinna háar upphæðir myndi spilafíkillinn ná sér á strik og borga skuldir sínar jafnframt sem honum færi að líða betur. Vissulega er það svo fyrir suma, en þeir eru því miður í minnihluta, því spilafíkillinn er orðinn háður þeirri leiðslu sem hann fer í fyrir framan spilakassann og þarf þar með að fá sinn skammt eins og alkinn og matarfíkillinn. Oft reynist það jafnvel erfiðara ef spilafíkillinn hefur unnið háa upphæð, þar sem hann upplifir sterkar jákvæðar tilfinningar við það að vinna. Þessar tilfinningar þráir hann síðan að upplifa aftur og aftur, en sú þrá verður síðan sterkur þáttur í þeirri leiðslu sem hann upplifir fyrir framan spilakassann.

Ein af ástæðum þess að margir spilafíklar halda áfram að spila, þó að stjórnleysið og vanlíðanin aukist, er afneitun. Til að halda áfram að spila og komast í sína leiðslu þá réttlætir fíkillinn fyrir sér atferlið á ýmsan hátt, til dæmis með að því segja við sjálfan sig; „Ég ætla bara að eyða klinkinu í vasanum í spilakassann og svo ekki meir.“  Útkoman verður þó oftast sú að öllum peningum sem eru til reiðu er eytt í kassann, því fíknin er svo sterk að ekki verður við neitt ráðið.  

Mikil reiði og sársauki sest oft að hjá aðstandendum spilafíkilsins, því þeir hafa það á tilfinningunni að spilamennskan skipti fíkilinn meira máli en fjölskyldan. Að geta ekki treyst spilafíkli fyrir fjármunum og/eða vita ekki hvort hann er að segja satt skapar sundrungu í fjölskyldunni. Fjölskylda spilafíkilsins þjáist oft mjög mikið og dæmi eru um að mánaðarkaup hafi horfið á útborgunardegi og jafnvel heilu húsin verið seld vegna skulda. Sá vanmáttur sem fjölskyldan upplifir getur hæglega leitt til þunglyndis og krónískrar vanlíðunar og ýtt undir meðvirkni. Það má með sanni segja að spilafíkn sé ekki einkamál, því vanlíðan sú sem af henni hlýst snertir ekki einungis spilafíkilinn, heldur alla hans nánustu fjölskyldu sem og vini og vinnuveitendur.

Að lokum er vert er að geta þess hér að bataferlið frá spilafíkn hefst ávallt á því að láta af afneitun og viðurkenna fyrir sjálfum sér og öðrum að um vandamál sé að ræða. Fyrr er lítið hægt að gera. Þegar búið er að viðurkenna vandann er mikilvægt að sækja sér aðstoð til að fá innsýn í spilafíknina og jafnframt fá stuðning til að halda sér frá fíkninni. Vert er að benda á Samtök Áhugafólks um Spilafíkn (SÁS) fyrir þá sem áhuga hafa á að að vinna sig út úr vandanum, hvort heldur um spilafíkil er að ræða eða aðstandendur hans.

Páll Einarsson MSc
Sálmeðferðarfæðingur