ForsíðaStarfsferillMeðferð & RáðgjöfGreinarHafa sambandTenglar
Bookmark


Að velja sér meðferðaraðila

Að taka sér tíma í að velja sér meðferðaraðila getur skipt miklu máli og verið fyrirhafnarinnar virði. Góð meðferð getur umbreytt lífi þínu á marga vegu og skiptir þá val á meðferðaraðila höfuð máli. Ég ætla nú að taka fyrir nokkra þætti sem geta skipt máli þegar lagt er af stað því mikilvægt er að þú sem skjólstæðingur áttir þig á því að enginn tveir meðferðaraðilar eru eins og sumir geta hreinlega verið varasamir.

1. Byrjaðu á því að tala við fólk sem þú treystir.

Nánir vinir eða fjölskyldumeðlimir hafa kannski farið til meðferðaraðila sem reynst hefur vel. Spurðu af hverju þeim fannst meðferðaraðilinn góður, hvað virkaði vel og hvað virkaði ekki svo vel

2. Hringdu í þá meðferðaraðila sem mælt hefur verið með.

Reyndu að fá á tilfinninguna hvernig viðkomandi meðferðaraðili virkar á þig í símanum. Ef þeir eru mjög uppteknir og fullbókaðir þá getur verið erfitt að komast að hjá þeim. Það breytir því ekki að þeir ættu að geta talað við þig í nokkrar mínútur í símanum.

a) Vertu viðbúinn að segja aðeins frá þér og því sem þú ert að glíma við og athugaðu hvort meðferðaraðilinn hefur reynslu að vinna með vandamál eins og þitt.

b) Athugaðu hvað einn tími kostar svo þú vitir að hverju þú gengur fjárhagslega.

c) Spurðu um menntun þeirra og hversu lengi þeir hafa starfað og jafnframt hvort þeir séu í handleiðslu með starf sitt, en það er vottur um að meðferðaraðilinn sé meðvitaður um þann alvarleika sem felst í því að stunda meðferð.

d) Athugaðu líka hvort meðferðaraðilinn hafi farið í gegnum eigin meðferð. Sumir meðferðaraðilar hafa einungis farið í 10 til 20 tíma sem tilheyrir þeirra námi á meðan aðrir eiga að baki 2-4 ára eigin meðferð.

e) Ef þeir eru óþolinmóðir eða fara í vörn gagnvart spurningum þínum þá afskrifaðu þá fljótt. Þeir munu mjög sennilega vera óþolinmóðir og fara auðveldlega í vörn í meðferðinni líka og þannig meðferðaraðilar gera meira ógagn en gagn.

3. Ef þú átt efni á því þá getur verið gott að fara til nokkra meðferðaraðila sem þér líst vel á eftir að hafa spjallað við þá í símann. Ef ekki þá pantaðu einn reynslutíma (sem er þó ekki frír) hjá þeim sem þér líst hvað best á.

a) Að vera í návist meðferðaraðilans og fylgjast með því hvernig hann ber sig að er besta prófið á meðferðaraðilanum. Eftir allt að velja sér réttan aðila skiptir höfuð máli.

b) Þú átt eftir að deila sjálfum þér og þínum erfiðleikum með þessum aðila svo þú þarft að skoða það vel hjá sjálfum þér hvort þú upplifir traust til viðkomandi.

c) Þrátt fyrir að einhver vinur þinn hafi mælt með viðkomandi þá þýðir það ekkert endilega að hann sé rétti meðferðaraðilinn fyrir þig.

4. Ef þú færð góða tilfinningu fyrir viðkomandi meðferðaraðila þá mæli ég með að þú semjir um að koma í nokkra tíma til reynslu (3-6 tímar).

a) Jafnvel þó þér líki strax vel við meðferðaraðilann þá mæli ég samt með að þú talir um að þú viljir reynslutíma til að byrja með.

b) Ef þú ert að hugsa um styttri meðferð í sambandi við eitthvað ákveðið vandamál þá muntu sennilega ekki hafa hugsað þér að vera lengur en svona 2 til 3 mánuði. Ef þú aftur á móti hefur áhuga á lengri tíma meðferð til að takast á við erfiðleika sem hafa verið þér fyrirstaða megnið af lífinu þá mæli ég með að þú látir meðferðaraðilann þinn vita að þú viljir 2 mánaða reynslutíma áður en þú ákveður þig alveg.

c) Þegar reynslutíminn er búinn er rétt að taka stöðuna með meðferðaraðilanum og skoða hvernig þér líður með það ferli sem búið er að vera í meðferðinni. Á þessari stundu geturðu annað hvort haldið áfram með viðkomandi eða farið til annars.

d) Það getur tekið nokkra mánuði að upplifa árangur en hafðu það samt hugfast að eitthvað ætti samt að ávinnast með hverjum tíma.

5. Að upplifa jákvæða “tengingu” við meðferðaraðilann sinn er mjög mikilvægt.

a) Rannsóknir á meðferðum sína að fyrir skjólstæðinginn skiptir meira máli að upplifa að hann njóti skilnings og honum líði vel í návist meðferðaraðilans til að árangur náist heldur en sá meðferðarskóli sem meðferðaraðilinn starfar eftir og eða hversu lengi viðkomandi hefur starfað.

b) Það þýðir þó ekki að meðferðaraðilinn þinn eigi að vera “kumpánlegur” og keppast við að verða vinur þinn, heldur á hann að vera faglegur, áhugasamur um vinnuna ykkar saman og sýna þér hluttekningu.

c) Það ættu að vera mjög skýrar reglur um það, með hvað miklum fyrirvara þú þarft að láta meðferðaraðilann þinn vita ef þú kemst ekki í tímann þinn til að þú þurfir ekki að greiða tímann. Sá tími getur verið misjafn eftir meðferðaraðilum.

d) Ef meðferðaraðilinn þinn fer að haga sér á tælandi hátt eða fer að gefa í skin að hann vilji líkamlegt samband við þig og eða fer að spyrja þig óþægilegra spurninga sem særa blygðunarkennd þína þá skaldu forða þér sem fyrst frá viðkomandi. Að vel skoðuðu máli skaltu síðan hafa samband við það fagfélag sem viðkomandi tilheyrir og tilkynna um atburðinn.

6. Fólk hefur mismunandi þarfir og þarf á mismunandi hlutum að halda frá meðferðaraðilanum sínum.

a) Sumir sem sækja sér meðferð vilja einungis tala við meðferðaraðila sem talar frekar lítið og er meira til baka. Aðrir vilja meðferðaraðila sem er hlýr og tekur virkan þátt í meðferðinni.

b) Vertu vel á verði gangnvart meðferðaraðilum sem virka kaldir, óvinveittir og kaldhæðnir. Rannsóknir sýna að útkoma út úr meðferðum með þess konar meðferðaraðilum er mjög slök.

7. Fyrir suma skjólstæðinga skiptir kyn meðferðaraðilans máli.

a) Sumir vilja bara vinna með karlmanni, aðrir einungis kvenmanni á meðan fyrir aðra skiptir kyn meðferðaraðilans ekki máli. Það sem skiptir mestu máli er að þér líði vel með meðferðaraðilanum þínum þannig að þú finnir að hann kunni sitt fag, sýni þér virðingu og haldi öll fagleg mörk í meðferðinni.

b) Konur sem hafa verið beittar ofbeldi af karlmönnum (líkamlegt, tilfinningalegt eða kynferðislegt) kjósa oft að sækja meðferð hjá konu þar sem þær eiga slæma reynslu af karlmönnum. Þegar viðkomandi kona hefur náð að vinna sig í gegnum hluta af óttanum við karlmenn þá getur verið mjög gott að fara til meðferðaraðila sem er karlkyns til að vinna dýpra úr óttanum og jafnframt reiðinni. Að takast á við óttan hjá karlkyns meðferðaraðila getur skipt miklu máli í staðinn fyrir að bara að tala um hann við aðra konu.

c) Það sama getur átt við karla sem sækja sér meðferð. Þeir sem átt hafa slæma reynslu af konum í gegnum lífið geta haft mjög gott af því að fara í meðferð til konu.

Páll Einarsson MSc
Sálmeðferðarfræðingur