ForsíðaStarfsferillMeðferð & RáðgjöfGreinarHafa sambandTenglar
Bookmark


Hvað er sálmeðferðarfræðingur ?

Sálmeðferðarfræðingur er einstaklingur sem leggur stund á viðtalsmeðferð eða sálmeðferð og hefur lokið sálmeðferðarnámi. Íslenska orðið sálmeðferðarfræðingur er frekar nýtt af nálinni en það er bein þýðing á enska orðinu Psychotherapist. Munurinn á sálfræðingi og sálmeðferðarfræðingi getur verið lítill og eða þá mikill en það fer eftir því hvað námi sálfræðingurinn sem og sálmeðferðarfræðingurinn hafa lokið.

Til að verða viðurkenndur sálfræðingur þá þarf í flestum tilfellum að ljúka 3-4 ára námi til BSc eða BA gráðu til að byrja með. Þetta nám er eingöngu bóklegt þar sem mikið er lagt upp úr góðri þekkingu á rannsóknum og uppbyggingu þeirra, sögu sálfræðinnar og kenningum sálfræðinnar. Eftir Bachelors gráðuna er farið í 2–5 ára nám sem skilar viðkomandi MA eða MSc gráðu og eða Doktorsgráðu. Það er mjög misjafnt eftir skólum hvort viðkomandi nám sem tilvonandi sálfræðingur fer í leggi mikið upp úr að vinna með fólk eða þá eingöngu rannsóknarvinnu. Mjög sjaldgæft er að gerð sé krafa á tilvonandi sálfræðing að hann sæki sér sýna eigin meðferð og nokkuð misjafnt er milli háskóla hversu mikla kennslu og þjálfun nemendur fá í að vinna með fólk. Ekki er heldur gerð krafa til sálfræðinga um að þeir sæki sér handleiðslu þó svo sumir geri það að eiginn frumkvæði.

Sálmeðferðarnám er nokkuð öðruvísi upp byggt. Hægt er að fara í sálmeðferðarnám sem tengist ekki endilega háskóla þó það sé meira að þróast í þá átt í Evrópu í dag. Til að geta orðið sálmeðferðafræðingur og fá inngöngu í fagsamtök sálmeðferðarfræðinga (eins og UKCP sem ég er meðlimur í) þá þarf viðkomandi að ljúka 4 ára námi sem er að stærstum hluta klínískt nám. Þetta nám getur farið fram á stofnun (Institute) eða í háskóla en algengt er að námið fari fram á stofnun sem síðan tengist háskóla.

Sálmeðferðarnámið byggir á 4 megin þáttum. Þessir þættir eru: bóklegt nám, meðferð með skjólstæðinga undir handleiðslu, eigin meðferð og hópmeðferð. Í bóklega náminu er lögð áhersla á að lesa bækur sem snúa að faglegri vinnu með skjólstæðinga sem tilheyrir þeirri meðferðarstefnu sem tilvonandi sálmeðferðarfræðingur leggur stund á. Samhliða bóklega náminu þá er skylda að sækja sér sína eiginn einstaklingsmeðferð í lágmark 4 ár (venjulega einu sinni í viku) á meðan á námi stendur. Á meðan á námi stendur þá tekur allur bekkurinn þátt í hópmeðferð þar sem sálarlíf tilvonandi meðferðaraðila er skoðað með hjálp hvers annars. Síðast en ekki síst þá er byrjað að vinna með skjólstæðinga undir handleiðslu handleiðara en það gerist síðustu 2 árin í náminu. Samhliða þessu þá þarf að skila ritgerðum og mastersritgerð sem og að sýna fram á að viðkomandi sé orðin hæfur til að vinna með fólk til að geta útskrifast og fengið inngöngu í fagsamtök sálmeðferðarfræðinga.

Allir sálmeðferðarfræðingar eru skyldugir til að vera í handleiðslu óháð því hvað þeir hafa starfað lengi. Þannig að eftir útskrift þá heldur sálmeðferðarfræðingurinn áfram í handleiðslu. Rökin fyrir því eru þau að allir eru að einhverju leiti blindir á sig og þar af leiðandi þá sé nauðsynlegt að sálmeðferðarfræðingurinn skoði sig sem meðferðaraðila með öðrum og haldi þannig áfram að vaxa sem meðferðaraðili og til að minnka líkurnar á að hann geri afdrifarík mistök í vinnu sinni með skjólstæðingum sínum.
Eftir að formlegu námi lýkur hjá sálmeðferðarfræðingnum þá er gerð krafa til hans um að hann haldi áfram að mennta sig og sé í raun í stöðugri símenntun. Ef hann sinnir þessu ekki þá er nokkuð víst að honum yrði vikið úr fagsamtökunum sálmeðferðarfræðinga.

Nú er það svo að sama hvaða nám viðkomandi hefur lokið og hvort hann hefur titillinn sálfræðingur eða sálmeðferðarfræðingur þá eru þeir einstaklingar sem sinna meðferðum mjög mismunandi og margir sálfræðingar hafa verið duglegir að mennta sig eftir að þeirra formlega námi lauk og sumir sálmeðferðarfræðingar hafa ekki náð góðu valdi á meðferðarforminu sem þeir hlutu þjálfun í. Þess vegna mæli ég með að fólk fari sér hægt og vandi valið og vil ég sérstaklega benda á greinina „Að velja sér meðferðaraðila“ fyrir þá sem eru að hugsa um að sækja sér meðferð.

Páll Einarsson MSc
Sálmeðferðarfræðingur